Nýi æskulýðsfulltrúinn varði sumrinu í Vindáshlíð
Sumarið hefur verið viðburðaríkt hjá Marínu Hrund Jónsdóttur, nýs æskulýðsfulltrúa Keflavíkurkirkju, en því varði hún að miklu leyti sem forstöðumaður nokkurra flokka í sumarbúðunum Vindáshlíð. Vindáshlíð eru sumarbúðir fyrir stelpur um 45 kílómetrum frá Reykjavík, á vegum KFUM&K á Íslandi sem er kristileg æskulýðshreyfing. Félagið heldur úti alls fimm sumarbúðum og um þrjátíu æskulýðsdeildum víðs vegar um landið.
Forstöðukonan starfar nótt og dag
„Ég fékk þá hugdettu að athuga með starf í Vindáshlíð en ég var þar sem barn og á stórkostlegar minningar þaðan. Ég fékk mjög jákvæðar viðtökur og var ráðin inn í nokkra flokka sem forstöðukona og foringi,“ segir Marín en í hverjum flokki Vindáshlíðar eru 82 stelpur. Starf forstöðukonunnar segir hún krefjandi, enda sé hún alltaf á vakt, nótt og dag. Marín sá svo einnig um leikjanámskeið fyrir börn á vegum KFUM&K í Keflavík í júní. „Sumarið var því krefjandi en skemmtilegt, fullt af söng og börnum, sem er akkúrat það sem ég elska.“
Börnin eiga sérstakan stað í hjartanu
Aðspurð hvaðan áhuginn á þessu starfi komi segist Marín alltaf hafa haft áhuga á að vinna með börnum. „Ég hef verið mjög ánægð í öllum fyrri störfum en börnin hafa einhvern sérstakan stað í hjarta mér. Ég prófaði mig áfram í háskólanum en endaði í kennaranáminu og var mjög ánægð. Ég stefni á kennarastarfið einn daginn en ég hef unnið sem forfallakennari áður og elska að kenna. Ég er þó mjög spennt fyrir starfinu mínu núna í haust og hlakka til að prófa eitthvað nýtt,“ segir hún en Marín mun sjá um barna- og unglingastarfið í Keflavíkurkirkju, sunnudagaskólann og unglingastarfið hjá KFUM&K. Sunnudagaskólinn í Keflavíkurkirkju hefst að jöfnu sunnudaginn eftir Ljósanótt og er alla sunnudaga kl. 11 yfir vetrarmánuðina. Hann er vettvangur fyrir dýrmætar samverustundir barnanna og fjölskyldna þeirra í kirkjunni.